Banvænn björgunarhringur

Reuters

Vísindamenn segja að þeir sem séu með mikið af aukafitu um sig miðjan eigi í meiri hættu en aðrir að látast langt fyrir aldur fram, jafnvel þó að þyngdin teljist vera eðlileg. Það er því ljóst að björgunarhringurinn ber ekki nafn með rentu.

Hátt í 360.000 manns frá níu Evrópulöndum tóku þátt í rannsókninni og var niðurstaðan skýr: mittisstærðin er skýr vísbending um það hverjir séu í hættu.

Fram kemur að við hverja fimm auka sentímetra, sem bætast við mittismálið, aukast líkurnar á því, eða sem nemur um 13 til 17%, að viðkomandi falli snemma frá.

Vísindamennirnir leggja til í rannsókninni, sem er birt í vísindaritinu The New England Journal of Medicine, að læknar að mæli reglulega mittismál sjúklinga. Það sé bæði ódýr og einföld aðferð til að meta heilsufar þeirra.

Það skal þó tekið fram að það er ekkert nýtt að það séu tengsl á milli mittisstærðarinnar og heilsufars einstaklinga. Það sem vekur athygli er hve umfangsmikil þessi rannsókn er. Hún þykir því gefa vísindamönnum gleggri mynd af ástandinu, en áður hefur verið til.

Fylgst var með þátttakendunum, sem voru sjálfboðaliðar, í 10 ár. Meðalaldur þeirra var 51 ár og að 10 árum liðnum voru 14.723 þeirra látnir.

Svokallaður líkamsþyngdarstuðull (e. body mass index) þykir enn gefa ágæta vísbendingu um heilsufar fólks. Því hærri sem talan er því líklegri er viðkomandi að látast af völdum hjartasjúkdóms eða krabbameini.

Vísindamennirnir komust hins vegar að því að með því að deila mjaðmastærðinni í mittisstærðina, og einfaldlega bara mæla mittisstærðina eina og sér, séu góðar leiðir til að komast að því hverjir séu í áhættuhópi.

Þeir komust m.a. að því að þeir sem voru með það sem telst vera eðlilegur líkamsþyngdarstuðull en voru breiðir um sig miðjan voru líklegri en aðrir að látast fyrir aldur fram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert