Ísland og Afríka ollu skjálftanum

Fjöldi skjálfta sem mælst hefur yfir 3 á Richter síðustu …
Fjöldi skjálfta sem mælst hefur yfir 3 á Richter síðustu 75 árin í suðurhluta Skandinavíu

Orsakir jarðskjálftans sem Danir og Svíar fundu fyrir snemma í morgun má rekja til Íslands og Afríku, ef marka má skýringarnar sem gefnar eru á dönsku fréttasíðunni Ingeniøren. Þar segir að skjálftann megi rekja til þess að Afríka og Ísland séu að þrýstast saman svo Skandinavía lendi á milli.

Skjálftinn sem varð um sexleytið í morgun mældist 4,7 á Richter sem er óvenju stór skjálfti á þessum slóðum og kannast íbúar á Skáni og í Kaupmannahöfn ekki við að hafa fundið annað eins í áraraðir. Reyndar verða að meðaltali um 10 minniháttar skjálftar í Danmörku á ári, en þeir eru yfirleitt svo smáir að Danir finna vart fyrir þeim.

Jarðfræðingar hjá GEUS, jarðfræðirannsóknastofu Danmerkur og Grænlands, segja að í morgun hafi Afríkuflekinn rekið í norður og þrýst á Evrópuflekann. Þrýstingurinn hafi borist gegnum Þýskaland og losnað úr læðingi í Skandinavíu. Á sama tíma, segir Søren Gregersen hjá GEUS, þrýsti Ísland á flekann hinumegin frá. Danmörk og suðurhluti Svíþjóðar hafi þannig lent mitt á milli spennunnar í jarðskorpunni milli Íslands og Afríku og við það hafi íbúar svæðisins hrokkið upp af værum blundi í morgun.

Gregersen skýrir jafnframt frá því að Skandinavía sé enn að jafna sig eftir ok skriðjökla sem huldu skagann allan á ísöld og því rísi Skandinavíulöndin um nokkra sentimetra á hverju ári. Þær umbreytingar leggi vissulega sitt að mörkum þegar kemur að jarðskjálftum, en hræringarnar í morgun megi þó fyrst og fremst rekja til Íslands annars vegar, og Afríku hinsvegar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert