Áhrif „gúgls“ á umhverfið

„Gúglað“ á netinu.
„Gúglað“ á netinu. Reuters

Tvær leitarbeiðnir á vefsíðu Google-leitarvélarinnar framleiða jafnmikið af koltvísýringi og gerist þegar fólk sýður vatn í katli. Þessu heldur fræðimaður við Harvard-háskólann í Bandaríkjunum fram.

Bandaríski eðlisfræðingurinn Alex Wissner-Gross hefur rannsakað áhrif þess að „gúgla“,þ.e. að leita á vefsíðu Google, á umhverfið.

Eðlisfræðingar, sem leggja áherslu á umhverfismál, hafa áhyggjur af áhrifum upplýsingatækninnar á umhverfið, að því er segir á fréttavef breska ríkisútvarpsins.

Google hefur sent frá sér yfirlýsingu um málið þar sem fram kemur að fyrirtækið taki þetta alvarlega. Þá er tekið fram að lítil orka fari í hverja leit á síðunni.

Á vef BBC kemur fram að nýleg rannsókn hafi metið það svo að upplýsingatæknigeirinn í heiminum framleiði álíka mikið af gróðurhúsalofttegundum og öll flugfélög heims.

Rannsókn Wissner-Gross leiddi í ljós að dæmigerð leit á Google, sem er framkvæmd í venjulegri borðtölvu, framleiði um það bil 7 grömm af koltvísýringi.

Tvær leitir jafngildi því um 14 grömmum sem sé álíka mikið magn af koltvísýringi og fer í að sjóða vatn í rafmagnskatli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert