Stærðin skiptir máli

Reuters

Í heimi verðbréfaviðskipta, þar sem karlhormónarnir eru mjög áberandi, skiptir stærðin miklu máli hvað varðar tekjur. Þessu halda breskir vísindamenn.

Í rannsókn sem vísindamenn við Háskólann í Cambridge gerðu kemur fram að reyndir verðbréfamiðlarar sem eru með langa baugfingur þénuðu þrefalt meira en þeir sem eru með styttri fingur.

Vísindamennirnir segja að þeir fingralengri hafi mögulega fengið meira af karlkynshormónum (andrógen) þegar þeir voru í móðurkviði. Þeir séu því einbeittari og viðbrögðin sneggri á gólfinu þar sem viðskiptin fari fyrirvaralaust fram.

Þeir segja að það virðist ekki skipta höfuðmáli hve mikið viðkomandi verðbréfamiðlai viti um markaðina. Lykillinn að velgengninni liggi fremur í lífræðilegum þáttum. Þetta skrifar John Coates og samstarfsmenn hans við Cambridge-háskóla í vísindaritið Proceedings of the National Academy of Sciences.

„Velgengni og ending verðbréfamiðlara sem fá mikið af andrógenum þykir benda til þess að fjármálamarkaðirnir fari fremur eftir líffræðilegum eiginleikum fremur en skynsömum væntingum,“ segja þeir.

Aðrar rannsóknir hafa tengt fingralengd við árásarhneigð, frjósemi, hæfni á íþróttasviðinu, auknu sjálfstrausti og hröðum viðbrögðum, að því er vísindamennirnir halda fram.

Alls voru 44 karlkyns verðbréfamiðlarar, sem starfa í London, rannsakaðir. Sumir þeirra höfðu yfir 700 milljónir kr. í árslaun. Allir mennirnir vinna í umhverfi þar sem hröð viðbrögð og skjót ákvörðunartaka skiptir miklu máli.

Vísindamennirnir mældu fingralengd allra mannanna og fékk upplýsingar um hagnað þeirra og tap sl. 20 mánuði. Þeir komust að því að þeir sem eru með langa baugfingur í samanburði við vísifingur eru með hærri tekjur á þessu tímabili. Þá segja þeir að fingralengdin sé til marks um það hve lengi viðkomandi muni endast í geiranum, þ.e. þeir fingralengri endast lengur.

Reynslumiklir verðbréfamiðlarar með lengstu baugfingurna þénuðu að meðaltali 828.000 pund á ári. Hinir fingrastuttu þénuðu hins vegar 154.000 pund að meðaltali.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert