Framandi lífverur hugsanlega að finna á jörðinni

Hugsanlegt er, að sögn vísindamanna, að á jörðinni sé að finna framandi lífverur, alls ólíkar því sem almennt þekkjast. Þessar verur kunna að vera í eitruðum vötnum eða háhitasvæðum á hafsbotni.

Paul Davies, eðlilsfræðingur hjá Arizonaháskóla, hvetur til þess að farinn verði „rannsóknarleiðangur til jarðar" til að leita að lífi á svæðum sem til þessa hafa ekki verið talin lífvænleg. 

„Við þurfum ekki að fara til annarra pláneta til að finna einkennilegar lífverur. Þær gætu verið beint fyrir framan nefið á okkur - eða jafnvel í nefinu á okkur," sagði hann á ráðstefnu í Chicago.  „Það er vel hugsanlegt, að það sé að finna skuggalífhvolf á jörðinni. En enginn hefur reynt að leita að því."

Fram kemur á fréttavef BBC, að Davies hafi verið einn ræðumanna á ráðstefnu þar sem fjallað var um hvort líf hafi þróast á jörðinni oftar en einu sinni. Afkomendur þessarar „síðari sköpunar" kunni að hafa lifað af í skuggalífhvolfi sem við skiljum ekki vegna þess að lífverurnar eru með allt aðra lífefnauppbyggingu en þekktar lífverur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert