Holl fæða of dýr í kreppunni?

Bretar horfa fyrst á verð og svo á hollustu þegar …
Bretar horfa fyrst á verð og svo á hollustu þegar kemur að því að kaupa í matinn í kreppunni mbl.is/Ómar

Um fjórðungur Breta láta hollt mataræði sitja á hakanum eftir að efnahagsástandið fór til verri vegar samkvæmt nýrri könnun. Niðurstöður sýna að 24% fólks líti nú svo á að það skipti minna máli að borða hollt en áður og 56% svara því til að verð á matvörum vegi núna þyngst þegar keypt er í matinn.

Þá sögðust 76% vera þeirrar skoðunar að bresk yfirvöld þyrftu að grípa til aðgerða til að gera fólki auðveldara fyrir að velja hollan mat í matarkörfuna. Á sama tíma sína hinsvegar aðrar kannanir að fleiri stefni nú að því að hætta að reykja en áður en kreppan hófst. Rúmlega einn þriðji af 9 milljónum reykingamanna í Bretlandi segjast íhuga að draga úr eða hætta alfarið reykingum gagngert vegna kreppunnar. Næst á eftir heilsufarsástæðum var efnahagur stærsta ástæðan fyrir þessu markmiði reykingamanna, og þar á eftir þrýstingur frá fjölskyldu og áhrif reykinga á börnin.

Hvað varðar mataræði er þróunin hinsvegar ekki jafngóð og er það m.a. kreppan sem spilar þar inn í skv. rannsóknum. Þrír af hverjum fimm Bretum segjast myndu kaupa meiri ávexti og grænmeti ef það væri ódýrara. Um fjórðungur Breta skilgreinist nú með offitu og haldi þróunin áfram í þá átt sem hún hefur verið undanfarin ár stefnir í að 60% þjóðarinnar verði of feit árið 2050.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert