Elsti nóbelsverðlaunahafinn 100 ára

Rita Levi-Montalcini er elsti núlifandi nóvelsverðlaunahafi heims, fædd 22. apríl …
Rita Levi-Montalcini er elsti núlifandi nóvelsverðlaunahafi heims, fædd 22. apríl 1909.

Elsti núlifandi nóbelsverðlaunahafi heims, Rita Levi-Montalcini, fagnaði í gær 100 ára afmæli sínu, en þrátt fyrir háan aldur hefur vinnuþreki hennar ekki hrakað meira en svo að hún mætir daglega til vinnu í Evrópsku heilarannsóknarstöðinni, sem hún stofnaði reyndar sjálf, í Róm.

Rita sagði í samtali við BBC í tilefni afmælisins að einræðisherratíð Benito Mussolini á Ítalíu mætti að hluta til að þakka fyrir farsælan feril hennar sem vísindamaður þrátt fyrir ofríki fasista. Þar sem hún er af gyðingaættum auk þess að vera kona þurfti hún að hætta háskólanámi þegar fasistar tóku völdin á fjórða áratug síðustu aldar og stundaði hún eftir það rannsóknir á heimagerðri rannsóknarstofu í herberginu sínu. 

„Þetta voru í raun mikil forréttindi, því þetta gaf mér tækifæri til að nýta hæfileika mína til fulls sem ég hefði líklega ekki gert ef ég hefði ekki verið þvinguð til að fara huldu höfði inni í herbergi við vinnuna. Ég held að erfiðleikar geti leitt til góðs í lífinu,“ hefur BBC eftir henni.

Tryggði sess þróunarkenningarinnar í grunnskólum

Rita er taugasérfræðingur og hlaut Nóvelsverðlaunin árið 1986 fyrir rannsóknir sínar, en um þessar mundir vinnur hún að því að skrifa bók um virkni heilans. Hún segist ekki óttast dauðann. „Ég hef aldrei haft áhyggjur af því. Það er líkaminn sem deyr, ekki manneskjan. Hugur minn er enn á lífi, ég er skarpari andlega nú heldur en ég var sem táningur.“

Hún var síðast í sviðsljósinu árið 2004 þegar hún skarst í leikinn þegar menntamálaráðherra Ítalíu hugðist banna kennslu þróunarkenningarinnar í grunnskólum. Hún hefur einnig vakið athygli fyrir að koma á fót samtökum fyrir afrískar konur sem hún segir að hafi verið „niðurlægðar bæði líkamlega og andlega.“  Rita situr enn sem öldungardeildarþingmaður á ítalska þinginu og var í fyrra, þá 99 ára gömul, sá þingmaður sem var minnst fjarverandi frá þingstörfum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert