Hobbítarnir áður óþekkt tegund

Hellir á indónesísku eyjunni Flores þar sem fundist hafa bein …
Hellir á indónesísku eyjunni Flores þar sem fundist hafa bein sem benda til þess að áður óþekkt tegund manna hafi lifað þar fyrir þúsundum ára. Reuters

„Vísindamenn hafa fundið frekari vísbendingar um að svonefnd hobbítabein, sem fundust í helli á afskekktri indónesískri eyju, séu bein áður óþekktrar tegundar manna, en ekki dvergvaxinna nútímamanna.

Beinin fundust á eyjunni Flores fyrir um það bil sex árum. Niðurstöður fyrstu rannsókna á beinunum vöktu mikla athygli þegar skýrt var frá þeim í október 2004. Þær bentu til þess að á eyjunni hefðu áður lifað óþekkt tegund sem líktist meira berfættum hobbítum í skáldsögum en nútímamanninum. Nokkrir vísindamenn drógu þó þessar niðurstöður í efa og töldu að um væri að ræða bein dvergvaxinna nútímamanna, eða pygmýa.

Niðurstöður frekari rannsókna, sem birtar voru í tímaritinu Nature, benda hins vegar til þess að hobbítarnir hafi verið áður óþekkt tegund, sem nefnd hefur verið Flores-maðurinn, eða Homo floresiensis, og tilheyri ekki tegundinni Homo sapiens, eða hinum viti borna manni.

Flores-maðurinn er talinn niðji Homo erectus, hins upprétta manns, sem flutti sig frá Jövu til Flores og annarra eyja fyrir um það bil milljón ára.

Flores-maðurinn var um metri á hæð, 30 kg þungur og stærð heilans var aðeins um þriðjungurinn af heila nútímamannsins. Talið er að Flores-maðurinn hafi lifað fyrir um 8.000 árum.

Teikning af Flores-manninum eins og vísindamenn telja að hann kunni …
Teikning af Flores-manninum eins og vísindamenn telja að hann kunni að hafa litið út. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert