Óhófleg kóladrykkja dregur úr vöðvastyrk

Óhófleg neysla kóladrykkja kann að valda ýmsum vandamálum.
Óhófleg neysla kóladrykkja kann að valda ýmsum vandamálum.

Óhófleg neysla kóladrykkja getur valdið allt frá vægum slappleika til verulegrar lömunar í vöðvum. Þetta kemur fram í skýrslu sem birt er í fagtímaritinu International Journal of Clinical Practice.

Að sögn læknanna sem að skýrslunni standa er þetta tilkomið vegna þess að kóladrykkja getur valdið því að magn kalíums í blóði falli hættulega mikið.

Skýrslan inniheldur m.a. sögu ástralsks strútsbónda sem endaði á gjörgæsludeild vegna lömunar í lungnavöðvum eftir að hafa drukkið 4-10 lítra af kóladrykkjum á dag. Strútsbóndanum heilsast nú vel, en honum var ráðlagt að minnka kóladrykkjuna verulega.

Annað dæmi í skýrslunni sagði frá óléttri konu sem drukkið hafði allt að þrjá lítra af kóladrykkjum dag hvern sl. sex ár. Hún kvartaði yfir þreytu, lystarleysi og reglulegum uppköstum. Rannsókn leiddi í ljós óreglulegan hjartslátt sem líklega mátti rekja til lágs magns kalíums í blóði. Henni batnaði líka er hún dró úr kólaneyslunni.

Rannsakendurnir telja, að sögn fréttavefs BBC, að þessi dæmi séu ekki einstök og að fjöldi fólks geti átt við vandamál að stríða tengd of mikilli kóladrykkju.

Dr Clifford Packer við Louis Stokes Cleveland VA læknamiðstöðina í Ohio telur að svo sé. „Við höfum fulla ástæðu til að telja að þetta sé ekki svo sjaldgæft. Með ágengum markaðssetningum, risastærðum gosdrykkja, aukins kaffínþols og kaffínfíknar þá tel ég mjög lítinn vafa leika á að tugir milljóna manna í hinum iðnvædda heimi drekki a.m.k. 2-3 lítra af kóladrykkjum á dag,“ hefur BBC eftir Packer.

„Þessu fylgir að magn kalíums í blóði hjá þeim sem neyta kóladrykkja í miklu magni fellur og í sumum tilfellum verður það hættulega lítið.“

Framleiðendur kóladrykkja fullyrða hins að varan sé hættulaus sé hennar neytt í hófi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert