Myndir af fótsporum á tunglinu

Mynd af fótspori á tunglinu
Mynd af fótspori á tunglinu Reuters

Bandarískt tunglfar hefur náð loftmyndum af ummerkjum á tunglinu eftir lendingu Apollo 14 geimfarsins, tæpum fjörutíu árum eftir að það lenti þar. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Á myndunum, sem teknar eru á fimm af sex lendingarstöðum Apollo geimfara á tunglinu má m.a. sjá búnað sem geimfarar skildu eftir á tunglinu og fótspor eftir geimfara Apollo 14, sem m.a. léku golf á tunglinu árið 1971.

Myndirnar voru teknar af tunglfarinu Lunar Reconnaissance Orbiter (LRO) sem hélt af stað í tuglferð sína þann 18. júní. Það kom til tunglsins þann 23. júní og eru myndirnar teknar á tímabilinu 11. til 15. júlí.   

Þrjár myndavélar eru um borð í tunglfarinu og senda þær myndir til jarðar. Til stendur að sjötti lendingarstaðurinn verði einnig myndaður.

Richard Vondrak verkefnastjóri geimvísindastofnunar Bandaríkjanna Nasa, segir leiðangurinn mikilvægan bæði þar sem hann skjalfesti ummerki um tuglferðir Apollo geimfaranna og einnig þar sem upplýsingarnar muni nýtast við upplýsingaöflun um aðstæður á tunglinu og skipulagningu ferða til tunglsins í framtíðinni.

Skammt er síðan NASA viðurkenndi að unnið væri að því að endurheimta tölvugögn úr Apollo-ferðunum sem hefðu glatast m.a. vegna þess að skrifað hafi verið yfir tölvudiska.

Apollo 14 var áttunda mannaða geimfarið í Apollo áætluninni og það þriðja sem lenti á tunglinu. Geimfarar þess gerðu m.a. jarðfræðirannsóknir og höfðu með sér sýni til jarðar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert