Árekstur við Júpíter

Árekstrarbletturinn á suðurhveli Júpíters. Myndin var tekin í gær með …
Árekstrarbletturinn á suðurhveli Júpíters. Myndin var tekin í gær með innrauða sjónauka NASA á Mauna Kea á Hawaii. Af heimasíðu NASA

Halastjarna eða smástirni rakst á Júpíter, líklega í fyrradag. Stjörnufræðingar hjá bandarísku geimferðastofnuninni, NASA, hafa staðfest þetta en ástralskur stjörnuáhugamaður, Anthony Wesley, varð þessa fyrstur var í fyrradag. Þá voru liðin nákvæmlega 15 ár frá því halastjarnan Shoemaker-Levy 9 rakst á Júpíter. Þetta kemur fram á Stjörnufræðivefnum.

Anthony Wesley uppgötvaði í fyrradag nýjan dökkan blett á suðurhveli Júpíters og þótti hann líkjast mjög þeim blettum sem halastjarnan Shoemaker-Levy 9 skildi eftir sig er hún rakst á Júpíter árið 1994. 

á Stjörnufræðivefnum segir að Wesley hóf að ljósmynda Júpíter klukkan 13:00 að íslenskum tíma frá heimili sínu í Ástralíu þann 19. júlí með heimasmíðuðum 14,5 tommu spegilssjónauka. „Fljótlega eftir að fyrstu myndirnar birtust á tölvuskjánum tók Wesley eftir dökkum blett sem hann hafði ekki séð áður, aðeins örfáum dögum áður. Í fyrstu taldi hann að um einfalt veðrabrigði væri að ræða en efaðist um leið og betri myndir bárust.“ Fram kemur að bletturinn var kolsvartur og mjög líkur þeim sem halastjarnan Shoemaker-Levy 9 skildi eftir sig þegar hún rakst á Júpíter fyrir 15 árum síðan. „Um leið og Wesley áttaði sig á mikilvægi þessa bletts lét hann aðra áhugamenn og stjörnufræðinga vita af honum.“

Í gær, 20. júlí, beindi NASA innrauðum stjörnusjónauka sínum á Mauna Kea á Hawaii á Júpíter í leit að ummerkjum um áreksturinn. „Á innrauðu ljósmyndunum er bletturinn bjartur sem er augljós merki um efni úr árekstrinum – leifarnar – sem svífa um efst í lofthjúpi Júpíters. Efnið hefur kastast upp við sprenginguna sem fylgdi í kjölfar árekstursins þar sem það endurvarpar sólarljósinu. Þetta eru fingraför árekstursins, hin sömu og sáust þegar Shoemaker-Levy 9 rakst á Júpíter árið 1995.“

Á Stjörnuskoðunarvefnum kemur fram að enn sé margt á huldu varðandi áreksturinn, en víst að gögnum verður safnað næstu daga. Þá ætti að koma í ljós hvers konar fyrirbæri það var sem rakst á Júpíter.

www.stjornuskodun.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert