Hið fullkomna andlit

Shania Twain er með „fullkomna
Shania Twain er með „fullkomna" andlitsdrætti.

Vísindamenn í Torontoháskóla í Kanada telja sig hafa komist að því hvaða hlutföll þurfi að vera í kvenandliti svo það sé aðlaðandi. Lykillinn sé hlutfall milli augna, munns og eyrna.  

Fram kemur á fréttavef BBC, að kanadíska poppsöngkonan Shania Twain sé með fullkomnasta andlitið samkvæmt niðurstöðum vísindamannanna, sem birtar eru í blaðinu Vision Research.

Vísindamennirnir báðu námsmenn að leggja mat á kvenandlit á myndum. Um var að ræða myndir af sömu konunni en með photoshop var bilinu milli augnanna breytt og sömuleiðis bilinu milli eyrna og munns.  Andliti konunnar var ekki breytt að öðru leyti.

Með þessari tilraun komust vísindamennirnir að niðurstöðu um hvað væri mest aðlaðandi hlutfall þessara andlitsdrátta. Samkvæmt því á bilið milli augna og munns að vera 36% af heildarlengd andlitsins frá hársrótum að höku. Þá á bilið á milli augasteina að vera 46% af breiddinni eyrna á milli.

Niðurstaðan var raunar, að þessi hlutföll sé að finna í meðalandliti og því eru flestar konur aðlaðandi í augum annarra. Vísindamennirnir sögðu einnig, að þær konur, sem ekki eru með þessi fullkomnu hlutföll þurfi ekki að grípa til lýtaaðgerða því hægt sé að grípa til ýmissa ráðstafana, svo sem mismunandi hárgreiðslu, til að skapa sjónhverfingar.

Kang Lee, sem stýrði rannsókninni, sagði að andlit kvikmyndastjörnunnar Angelinu Jolie, sem margir telja eina fegurstu konu heims, samræmist ekki fyrrgreindum hlutföllum, hvorki í lengd né breidd.

Breska leikkonan Elizabeth Hurley uppfyllir lengdarhlutfallið en ekki breiddarhlutfallið.

Andlit Shaniu Twain samræmist hins vegar fullkomlega þessum mælikvörðum. 

Námsmennirnir skoðuðu aðeins myndir af hvítum konum og vísindamennirnir viðurkenna að niðurstöðurnar gætu verið aðrar fyrir andlit kvenna af öðrum kynþáttum.

Angelina Jolie er með röng hlutföll.
Angelina Jolie er með röng hlutföll. Reuters
Elizabeth Hurley.
Elizabeth Hurley. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert