Tengsl milli áfengis og krabbameins

Reuters

Rannsóknir benda eindregið til þess, að tengsl séu á milli neyslu áfengis og brjóstakrabbameins. Danska blaðið Berlingske Tidende segir frá þessu í dag, og vísar m.a. til danskrar rannsóknar.

Blaðið vísar til þess, að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, segi að vísindalegar rannsóknir styðji að hættan á brjóstakrabbameini aukist um 10% fyrir hvern dag sem viðkomandi neytir 10 gramma af áfengi. Það svarar til lítils áfengisskammts.  

Meðal þeirra rannsókna, sem liggja að baki þessarar fullyrðingar WHO er rannsókn danska krabbameinsfélagsins Kræftens Bekæmpelse. „Við komumst að raun um, að um það bil 15% af 4000 krabbameinstilfellum árlega, tengjast áfengisneyslu. Ef konur draga úr áfengisneyslu mun það fljótt koma fram í tölum um brjóstakrabbameinstilfelli," hefur Berlingske eftir Anne Tjønneland, yfirlækni Kræftens Bekæmpelse.

Tjønneland segir, að jafnvel mjög hófleg neysla áfengis auki framleiðslu líkamans á östrogen-hormónum og jafnframt hættuna á brjóstakrabbameini. 

Danska lýðheilsustofnunin mælir með því, að konur drekki ekki meira en 14 áfengisskammta á viku en Kræftens Bekæmpelse segir að í ljósi þessara niðurstaðna ættu konur aðeins að drekka í mesta lagi sjö skammta. Einn áfengisskammtur er m.a. eitt léttvínsglas eða lítil flaska af bjór. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert