Bresk tæknifrjóvgunarstöð gefur egg úr konu í happdrætti

Tæknifrjóvgun
Tæknifrjóvgun mbl.is/Árni Sæberg

Bresk tæknifrjóvgunarstöð kynnti í dag happdrætti þar sem sigurvegaranum gefst kostur á að velja sér egg úr konu, út frá bakgrunni hennar. Er þar m.a. litið til menntunar, uppeldis og kynþáttar gjafarans.

The London Bridge Fertility Gyneacology and Geneticts Centre segir þjónustu sína samræmast breskum lögum en eiginleg meðferð eigi sér stað í Bandaríkjunum og eggin séu þaðan. Eggin eru úr bandarískum nemum á aldrinum 19-32 sem eru reyklausir og ekki í yfirvigt. Bandarísk lög leyfa konum að selja egg sín og geta þær fengið allt að 10.000 bandaríkjadölum, um 1,2 milljónir króna á skiptið. Slík sala er bönnuð í Bretlandi og þar verða konur að samþykkja að börnin geti fengið vitneskju um þær og haft samband þegar þau ná 18 ára aldri, sem dregur óneitanlega úr framboði.

Breskum konum sem hafa áhuga á að vinna gjafaegg, er boðið til ráðstefnu á miðvikudaginn með bandarískum samstarfsaðila bresku tæknifrjóvgunarstöðvarinnar. Sigurvegari happdrættis þar, hlýtur gjafaegg og ókeypis tæknifrjóvgun hjá bandarísku tæknifrjóvgunarstöðinni.

Talsmaður bresku tæknifrjóvgunarstöðvarinnar sagði breskar konur leita í auknum mæli út fyrir landsteinana að tæknifrjóvgunarmöguleikum, þar sem reglur í Bretlandi gerðu þeim erfitt fyrir að finna egg gjafa. Um það hvort þjónustan væri lögleg, sagði talsmaðurinn það aðeins þeirra að veita upplýsingar um þá möguleika sem væru í boði. Á endanum væri það konunnar að velja.

Hann sagði gjafasæði með bakgrunnsupplýsingum hafa verið til staðar lengi, einfaldlega vegna þess hve miklu auðveldara væri að gefa það en egg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert