Er hláturgas næsta stóra ógnin?

Hláturgas gæti verið næsta stóra ógnin við andrúmsloft jarðar. Ný dönsk rannsókn hefur leitt í ljós að hláturgas hefur 300 sinnum skaðlegri áhrif á hlýnun jarðar og ósonlagið en koltvísýringur (CO2). Frá þessu er greint á vef danska dagblaðsins Politiken.

Rannsóknin var að stærstum hluta gerð við Zackenberg á Norðaustur-Grænlandi og leiðir hún í ljós að þegar sífreri þiðnar losnar ótrúlega mikið magn af hláturgasi úr jörðu sem getur haft mjög neikvæð áhrif á ósonlagið. Fjallað er um rannsóknina í nýjasta hefti tímaritsins Nature Geoscience.

Ljóst er að með hlýnun jarðar eru meiri líkur á að svæði sem í dag einkennast af sífrera muni þiðna með þeim afleiðingum að hláturgas losnar úr jörðu. Þetta mun svo aftur hafa enn neikvæðari áhrif á hlýnun jarðar. Þetta er mat Bo Elberling, prófessors við Jarðfræðistofnun Háskólans í Kaupmannahöfn.

„Það hefur sýnt sig að þessar rannsóknarniðurstöður eiga ekki bara við um Zackenberg á Norðaustur-Grænlandi heldur á öllu norðurheimskautssvæðinu,“ segir Elberling. Hann hefur borið saman niðurstöður frá fimm öðrum sífrerasvæðum sem benda til þess að svipað magn af köfnunarefni sem ummyndast geti í hláturgas sé að finna á þeim svæðum.
 
Frá árinu 1800 hefur magn hláturgass í andrúmsloftinu aukist mjög hratt. Um 70% af því hláturgasi sem finna má í andrúmsloftinu á sér náttúrlegan uppruna, þ.e. hefur losnað úr læðingi þegar köfnunarefni brotnar niður í jörðinni. Mannskepnan ber hins vegar ábyrgð á um 30% af því hláturgasi sem finnst í andrúmsloftinu.

Hláturgas veldur eyðingu á ósonlaginu í efri lögum lofthjúpsins, sem nefnist heiðloft. Í neðri lögum lofthjúpsins, þ.e. í veðrahvolfinu, er hefur hláturgas 300 sinnum verri áhrif en koltvísýringur. Til samanburðar má nefna að metangas er „aðeins“ 23 sinnum skaðlegra en koltvísýringur.

Á Vísindavef Háskóla Íslands má sjá að hláturgas eða glaðgas kallast díniturmónoxíð á máli efnafræðinnar og hefur efnatáknið N2O. Sameind þess er mynduð úr einni súrefnisfrumeind (O) og tveimur niturfrumeindum (N) sem einnig hefur verið kallað köfnunarefni á íslensku.

Efnið var fyrst búið til árið 1776 og framan af notað til svæfinga. Um miðja 19. öld var það fyrst notað af tannlæknum við aðgerðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert