Hreyfing mikilvægari en mataræði

mbl.is/Friðrik Tryggvason

Regluleg hreyfing er líkamanum mikilvægari en hollt mataræði. Þetta er niðurstaða nýrrar umfangsmikillar rannsóknar sem unnin var á vegum norsku lýðheilsustöðvarinnar.

Rannsókn vísindamannanna leiðir í ljós að regluleg hreyfing hefur jákvæðari fyrirbyggjandi áhrif á fjölda sjúkdóma, þeirra á meðal hjartasjúkdómar, sykursýki, brjóstakrabbamein, ristilkrabbamein og beinþynningu, heldur en hollt matarræði.

Haakon Meyer, læknaprófessor, hjá Óslóarháskóla, leggur engu að síður áherslu á að hvoru tveggja sé mikilvægt, þ.e. hreyfing og hollt mataræði, til að tryggja góða heilsu. Bendir hann á að jákvæð áhrif hreyfingar séu hins vegar auðmælanlegri en áhrif mataræðis.

Bjørn Richelsen, yfirlæknir hjá Árhúsaháskóla, tekur undir með norska starfsbróður sínum. „Til að tryggja góða heilsu er lykilatriði að stunda reglulega hreyfingu. Næstmikilvægast er að huga að mataræði og passa að maður borði ekki meira en maður brennir. Þannig getur maður eðlilega leyft sér að borða meira ef maður hreyfir sig meira á móti,“ segir Bjørn Richelsen.

Vísindamennirnir mæla með því að fólk hreyfi sig í að lágmarki 30 mínútur á dag.



















mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert