Þorvaldseyri á vefinn

Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum
Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum mbl.is/Golli

Heimilisfólkið á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum hefur opnað heimasíðu, www.þorvaldseyri.is, þar sem hægt er að fylgjast með fréttum tengdum bústörfum og uppbyggingu eftir eldgosið og skoða myndir.

Þar er m.a. saga Þorvaldseyrar rakin í stuttu máli.

„ Í kjölfar eldgoss, öskufalls og flóða úr Eyjafjallajökli höfum við á Þorvaldseyri fundið fyrir miklum stuðningi frá einstaklingum, fyrirtækjum og fjölmörgum sjálfboðaliðum, sem tekið hafa þátt í hreinsunarstarfi. Erum við þeim mjög þakklát. Við hvetjum fólk til að heimsækja síðuna okkar og fylgjast með lífinu í ,,öskunni”," segir í tilkynningu frá heimilisfólkinu á Þorvaldseyri.

Í þjóðhátíðarávarpi sínu sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, að Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri væri hetja í hennar huga og táknmynd Íslendinga sem hafa sigrast á tímabundnu mótlæti.

„Við gleðjumst yfir birtunni og gróskunni í náttúrunni og þeirri gleði sem fylgir íslensku sumri í hjörtum okkar allra. Mér er minnisstæð myndin af Ólafi bónda á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum þegar hann handlék nýslegið grasið á jörðinni sinni. Við sáum þar mann sem höfðu um hríð fallist hendur vegna áhrifa náttúraflanna en upplifði þennan dag uppskeru erfiðis síns, uppskeru sem fór fram úr hans björtustu vonum.

Í mínum huga er þessi góði búmaður táknmynd Íslendinga sem hafa sigrast á búsifjum, sigrast á náttúröflum og sigrast á tímabundnu mótlæti. Bóndinn á Þorvaldseyri er hetja í mínum huga eins og svo margir Íslendingar sem hafa tekist á við afleiðingar þeirra efnahagslegu hamfara sem á okkur hafa dunið af æðruleysi," sagði Jóhanna í ávarpi til þjóðarinnar í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert