Smíða risavindorkumyllur

Myndin er fengin af vef Wind Power Ltd, windpower.ltd.uk. Vænghaf …
Myndin er fengin af vef Wind Power Ltd, windpower.ltd.uk. Vænghaf þessarar útfærslu yrði um 275 metrar.

Breskir verkfræðingar taka nú þátt í kapphlaupi um smíði og þróun risavaxinna vindorkumylla sem hafa um 10MW orkuvinnslugetu. Raunhæft þykir að smíða jafnvel enn stærri vindorkumyllur en vænghaf þessarar útfærslu yrði um 275 metrar.

Vindmyllan sem um ræðir heitir Aerogenerator X en hugmyndin er að hún verði föst við sjávarbotninn þar sem hún fljóti á hafi úti (sjá mynd).

Vænghafið yrði gríðarlegt, nærri því þreföld lengd knattspyrnuvallar, en fram kemur á vef breska dagblaðsins Guardian að fyrstu myllurnar fari í notkun á árunum 2013-2014 eftir tveggja ára tilraunir.

Samkvæmt því gætu myllur af þessari stærðargráðu farið í fjöldaframleiðslu um miðjan þennan áratug.

Hefur blaðið eftir Feargal Brennan, vísindamanni við Cranfield University, að fræðilega sé hægt að stækka vindmylluna í 20MW og jafnvel enn meira.

Það er gríðarleg orkuvinnsla og má nefna að aðeins þyrfti þá 14 vindmyllur til að fara fram úr vinnslugetu Búrfellsvirkjunnar (270 MW).

Segir blaðið nokkur fyrirtæki í kapphlaupi um að þróa og smíða vindmyllur af þessari stærðargráðu og kemst einn viðmælandi blaðsins svo að orði að sá sem komi fyrstur í mark muni verða í kjörstöðu á markaðnum.

Orkuvinnsla á sjó myndi skipta Breta miklu máli enda reiða þeir sig mjög á innflutta orku, einkum jarðgas, til að knýja hagkerfi sitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert