Töfratala Rúbik-kubbsins fundin

Rúbiks kubburinn víðfrægi var skapaður árið 1974 af ungverska arkitektinum …
Rúbiks kubburinn víðfrægi var skapaður árið 1974 af ungverska arkitektinum Erno Rubik.

Í 30 ár hafa menn tekist á við þá áskorun að finna með hvaða lágmarksfjölda snúninga megi leysa þraut Rúbiks-kubbsins úr öllum mögulegum upphafsstöðum. Nú virðist niðurstaða fengin í málið. Rúbiks kubbnum er hægt að rugla á milljónir mismunandi vega, en úr hvaða upphafsstöðu sem er á að vera hægt að leysa þrautina með 20 snúningum eða færri.

Það var alþjóðlegt teymi vísindamanna sem notaði tölvuheila Google til að glíma við lausnina. „Nú vitum við fyrir víst að töfratalan er 20," hefur BBC eftir stærðfræðingnum Morley Davidson við háskólann í Kent.

Niðurstöðurnar gefa til kynna að af þeim 43 billjónum upphafsstaða sem eru mögulegar megi leysa yfir 100.000 með nákvæmlega 20 snúningum. Í flestum tilfellum á þó ekki að þurfa fleiri en 15 til 19 snúninga til að leysa þrautina.  

Allt til ársins 1995 töldu vísindamenn að töfratalan væri 18. Eftir að stærfræðingurinn Michael Reid sannaði að til væri upphafsstaða sem ekki væri með nokkru móti mögulegt að leysa í færri en 20 snúningum þurfti hinsvegar að leggjast yfir málið á nýjan leik. „Við vonuðum eiginlega innst inni þegar við gerðum rannsóknina að við fyndum eina útgáfu sem þyrfti 21 snúning," segir Morley Davidsson. Það fannst þó ekki og telur teymið sig því hafa sýnt fram á með nokkuð öruggum hætti að töfratalan sé 20.

Það fæst þó ekki endanlega sannað því enginn hefur getað tekist á við allar mögulegar útgáfur af kubbnum enda skipta þær milljörðum. Vísindamennirnir fengu hjálp frá ofurtölvu Google til að böðlast í gegnum eins margar útgáfur af kubbnum og mögulegt væri og segir Davidson að með því sé nánast alveg búið að útiloka að til sé lausn sem þurfi lágmark 21 snúning, þótt hann hvetji áhugasama til að láta á það reyna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert