Ljóst að Guð skapaði ekki heiminn segir Hawking

Stephen Hawking.
Stephen Hawking. Retuers

Það er ekkert pláss lengur fyrir Guð þegar kemur að kenningum um sköpun heimsins, vegna stöðugrar framþróunar í eðlisfræði. Þetta segir breski vísindamaðurinn Stephen Hawking, í útdrætti sem birtur var í dag úr væntanlegri bók hans. Afstaða Hawking til trúarbrögða virðist því hafa breyst síðan hann gaf út metsölubókina Sögu tímans árið 1988.

Hawking segir að upphaf heimsins við Stórahvell hafi aðeins verið afleiðingar þyngdarlögmálsins. „Vegna þess að þyngdarlögmálið er til staðar þá gat og mun heimurinn skapa sjálfan sig úr engu. Sjálfsprottin sköpun er ástæða þess að það er eitthvað fremur en ekkert, ástæða þess að heimurinn er til, að við erum til," segir Hawking í bókinni „The Grand Deisgn" sem birtist sem framhaldssaga í The Times.

„Það er ekki nauðsynlegt að kalla á Guð til að koma heiminum í gang," segir hann. Hawking er frægur um allan heim fyrir skrif sín og heimildamyndir. Í Sögu tímans sagði hann að hugmyndin um Guð eða himneska návist væri ekki ósamrýmanleg vísindalegum skilningi á alheiminum.

Í nýjustu bók sinni segir hann hinsvegar að uppgötvun sem gerð var árið 1992, um plánetu með stjörnu á sporbaug utan okkar sólkerfis, væri vendipunktur sem afsannaði kenningu Isaacs Newtons um að heimurinn hefði ekki getað orðið til úr óreiðu.  

„Þetta gerir tilviljunarkennda uppröðun okkar sólkerfis, hina heppilegu fjarlægð milli jörðu og sólar, mun ómerkilegri og minna sannfærandi sem sönnun fyrir því að jörðin hafi verið vandlega sköpuð fyrir okkur mannfólkið," skrifar Hawking.

Fyrir stuttu hélt Hawking því fram að eina leið mannkynsins til að lifa af til langframa væri að nema land í geimnum þar sem við værum óðum að þurrka upp auðlindir jarðar.

AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert