B-vítamín draga úr heilahrörnun

Tiltölulega stórir dagskammtar af b-vítamínum geta dregið úr heilahrörnun og seinkað því að fólk fái alzheimer-sjúkdóminn eða hugsanlega jafnvel komið í veg fyrir það, ef marka má nýja rannsókn.

Rannsóknin bendir til þess að daglegir b-vítamínskammtar geti dregið úr heilarýrnun í öldruðu fólki með byrjunareinkenni alzheimers um allt að helming.

Heilarýrnun er eðlilegur hluti af öldrun en verður hraðari í fólki með svonefnda væga hrörnun heilastarfsemi (MCI), sem er á milli þess að vera eðlilegt minnistap og byrjunarstig alzheimersjúkdómsins, en um 12% þeirra sem þjást af slíkri hrörnun fá alzheimer á lokastigi.

Vísindamenn við Oxford-háskóla, sem önnuðust rannsóknina í samstarfi við norska vísindamenn, sögðust telja að b-vítamínin gætu hægt á þróun alzheimersjúkdómsins eða jafnvel stöðvað hana en lögðu áherslu á að rannsaka þyrfti þessa tilgátu frekar.

Skýrt er frá rannsókninni í veftímaritinu Public Library of Science ONE. Í rannsókninni var heilarýrnun mæld í 168 sjálfboðaliðum sem voru yfir sjötugt og höfðu greinst með væga hrörnun heilastarfsemi, MCI. Helmingur þeirra fékk eina töflu á dag í tvö ár og í henni voru tiltölulega stórir skammtar af B-vítamínum, fólat, B6 og B12. Hinn helmingurinn fékk gervilyf án nokkurra vítamína. Í ljós kom að heilarýrnunin minnkaði um 30% að meðaltali meðal þeirra sem fengu B-vítamínin og í sumum tilvikum um allt að 53%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert