Orðið „Icesave” skrifað 76.427 sinnum í fyrra

Margar greinar voru skrifaðar um Icesave á netinu í fyrra.
Margar greinar voru skrifaðar um Icesave á netinu í fyrra. Ómar Óskarsson

Algengasta erlenda orðið sem birtist á íslenska hluta Internetsins er hið margumdeilda „Icesave” sem var ritað alls 76.427 sinnum á síðasta ári. Þetta má lesa út úr tölum frá Vaktaranum, sem rekinn er af  markaðsrannsóknarfyrirtækinu Clara.

Vaktarinn er ný vara fyrir íslensk fyrirtæki sem veitir þeim gagnvirka leið til að fylgjast með umtali um vörur og þjónustu fyrirtækisins.

Alls hefur Vaktarinn fundið 2.571.995 greinar eða færslur sem Íslendingar hafa skrifað á síðastliðnu ári. Ef við gefum okkur að þessar greinar séu skrifaðar af fólki milli tólf og sjötugs, þá skrifaði hver Íslendingur á þessum aldri að meðaltali 10 greinar eða færslur á árinu.

Allt í allt voru þetta 195.684.610 orð sem voru skrifuð á árinu og hefur því samkvæmt þessu hver Íslendingur að meðaltali skrifað 818 orð á netinu.

Samkvæmt Íslenskri orðtíðnibók er orðið „og” algengasta orðið í íslenskunni. En samkvæmt greiningu á gögnum Vaktarans er svo ekki. Algengasta orðið er einhver beygingarmynd sagnarinnar „að vera” (birtist 7.327.197 sinnum á síðasta ári). Annað algengasta orðið í íslensku netmáli er „að” sem var skrifað 6.754.132 sinnum. Og í þriðja sæti er svo fyrrverandi meistarinn „og” (5.547.245 sinnum). En af þessu má sjá að ritmál Íslendinga er að breytast með nýrri tækni.

Maður, dagur fólk, land, Ísland, staður eru algengustu nafnorðin. Jón, Steingrímur og Davíð eru algengustu karlkynsorðin og Jóhanna, Guðrún og Kristín eru algengustu kvenkynsorðin.

Seðlabankinn, Landsbankinn og Kaupþing eru algengustu stofnanir sem nefndar eru á netinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert