Uppgötva arfgenga breytanleika

Kári Stefánsson, forstjóri deCODE
Kári Stefánsson, forstjóri deCODE Sverrir Vilhelmsson

Alþjóðleg rannsókn, sem deCODE hefur komið að og náði til um 250 þúsund manns, hefur leitt í ljós arfgenga breytanleika sem hafa áhrif á fitu annars vegar, og hlutfall mittis- og mjaðmastærðar hins vegar. Breytanleikarnir eru ekki þeir sömu.

Í tilkynningu segir að „erfðafræðin virðist benda okkur á líffræðilegan mun á milli þeirra tveggja þátta sem hafa áhrif á þyngd - hversu mikið við borðum og hvernig hitaeiningar eru geymdar í formi fitu.“

Niðurstöðurnar verða birtar í tímaritinu Nature Genetics á næstunni.

„Við snerum bökum saman, ansi stór hópur, og þetta er það sem kom út úr því. Þetta er leit að arfgengum breytileikum í erfðamenginu sem hafa áhrif á annars vegar fitu og hins vegar þetta hlutfall, milli mittis og mjaðma,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri deCODE og einn höfunda skýrslunnar.

Eins og áður segir hefur það komið í ljós að ekki eru sömu þættir sem hafa áhrif á fitu og vaxtarlagið.

„Það sem er ofboðslega áhugavert er að þú ert annars vegar með breytanleika sem hefur beint áhrif á fitu, og hins vegar þá sem hafa áhrif á þetta hlutfall. Það eru ekki sömu breyturnar sem gera það. Það eru aðrir breytanleikar sem hafa áhrif á þetta hlutfall. Síðan finnst mér mjög áhugavert að það er ekki jafnt á komið með konum og körlum. Þegar að þessu kemur, þ.e.a.s. að áhrif þessar breytanleika eru öðruvísi á konur en karla,“ segir Kári.

En hvaða áhrif hafa þessir breytanleikar á líkurnar á því að einstaklingur komi til með að þjást af offitu eða að vaxtarlagið sé með ákveðnum hætti?

„Með öllum þessum breytanleikum hefur þetta oft ansi mikla áhættu í för með sér. Þ.e.a.s., þessir breytanleikar allir saman eru ansi áhrifamiklir þegar kemur að því hvernig þú verður í laginu.“

Þannig geta erfðafræðilegir þættir haft umtalsverð áhrif á vaxtarlag fólks.

„Sem þýðir það að ef þú hefur áhyggjur af því hvernig þú verður í laginu er eins gott fyrir þig að vanda valið þitt á foreldrum. Hitt er allt saman aukaatriði,“ segir Kári í léttum dúr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert