Kjöt og mjólk úr klónuðum kúm í lagi

Nautakjöt
Nautakjöt mbl.is

Óhætt er að neyta bæði kjöts og mjólkur úr klónuðum kúm, sem og afkvæmum þeirra, að mati breskra vísindamanna. BBC segir frá þessu, en ráðgjafanefnd um nýfæði í Bretlandi er þeirrar skoðunar að ólíklegt sé að neytendum stafi hætta af klónuðum kúm.

Málið verður tekið til nánari skoðunar af Matvælastofnun Bretlands í desember áður en ráðherrar fá formlega ráðgjöf um hvaða skref sé rétt að taka í málinu. Í sumar komst til talsverðrar umræðu í Bretlandi hvort kjöt úr afkvæmum klónaðra dýra væri til sölu án merkinga í verslunum. Þessu hefur enn ekki verið svarað til fulls, en vísindamenn telja að enginn grundvallar munur sé á kjöti og mjólk úr klónuðum dýrum en úr „hefðbundu" búfé.

Í Bandaríkjunum, Suður-Ameríku og Asíu mega bændur stunda kynbætur með klónuðum kúm, kindum og svínum til að auka mjólkur- og kjötframleiðslu. Í Evrópu hafa bændur hinsvegar þurft að sækja eftir sérstökum heimildum til þess þar sem það flokkast sem „nýfæði", þ.e. matvæli sem framleidd eru með nýjum eða nýstárlegum vinnsluaðferðum og eru ekki hefðbundin neysluvara í Evrópu.

Þessar takmarkanir jafngilda í raun banni og líta sumir evrópskir bændur svo á að samkeppnisstaða þeirra sé skert þar sem þeim sé ekki heimilt að nýta sér nýjustu tækniframfarir í faginu, að sögn BBC. Gagnrýnendur klónunar segja hinsvegar að góð ástæða sé til að anna hana í evrópskum landbúnaði þar sem enn sé mörgum spurningum ósvarað, bæði  praktískum og siðferðislegum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert