Snúa við öldrun í músum

Vísindamenn við læknadeild Harvard-háskóla í Bandaríkjunum segjast vera skrefi nær því að geta komið í veg fyrir öldrun eftir að þeim tókst að endurnýja slitin líffæri í gömlum og lúnum músum. Vonir standa til að hægt verði að beita aðferðinni á menn í framtíðinni til þess að koma í veg fyrir öldrun eða a.m.k. að hægja á henni.

Meðferðin gæti haft stórbrotin áhrif á lýðheilsu þar sem hún myndi draga úr þeirri byrði á samfélagið sem öldrunarsjúkdómar eru eins og vitglöp, heilablóðföll og hjartasjúkdómar. Þá gæti hún aukið lífsgæði samfélaga sem sífellt nær hærri aldri. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu á vefsíðu sinni.

„Það sem við sáum í þessum dýrum var ekki bara það að það hægðist á öldruninni eða hún yrði stöðug. Við sáum meiriháttar viðsnúning og það var óvænt,“ sagði Ronald DePinho, forsvarsmaður rannsóknarinnar sem birt var í tímaritinu Nature.

„Þetta gæti leitt til aðferða sem auka endurnýjunarmöguleika líffæra eftir því sem einstaklingar eldast sem yki lífsgæði þeirra. Hvort þetta leiði til lengra lífs er spurning sem við getum enn ekki svarað.“

Margt er á huldu um hvernig öldrun gengur fyrir sig en vísindamenn vita að margir þættir hafa áhrif á hana. Þannig geta reykingar, útfjólublátt ljós og aðrir umhverfisþættir hraðað öldruninni.

Mýsnar í rannsókninni voru sprautaðar með ensíminu telomerase sem hafði þau áhrif að skemmdir vefir greru og merkjum um öldrun var snúið við.

Að endurtaka leikinn í mönnum gæti reynst erfiðara. Mýs mynda ensímið alla ævina en það er hins vegar óvirkt í fullorðnu fólki og er það talið vera nokkurs konar málamiðlun í þróuninni sem kemur í veg fyrir að frumur fjölgi sér stjórnlaust og breytist í krabbamein. Með því að auka magn ensímsins í fólki væri hugsanlegt að hægja á öldrun en hins vegar myndi hættan á krabbameini rjúka upp úr öllu valdi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert