Merkur plánetufundur

Kepler-stjörnusjónaukanum skotið á loft.
Kepler-stjörnusjónaukanum skotið á loft. Reuters

Vísindamenn NASA hafa fundið sólkerfi í um tvö þúsund ljósára fjarlægð frá jörðinni sem er það líkasta okkar eigið sem fundist hefur. Aldrei hafa fleiri plánetur fundist við stjörnu en alls hafa sex plánetur fundist við stjörnuna Kepler-11.

Fleiri en hundrað plánetur hafa fundist utan sólkerfis okkar en flestar þeirra hafa verið gasrisar líkir Júpíter og nær allar þeirra hafa verið einu plánetur sólkerfis síns. Fundust pláneturnar með Kepler-stjörnusjónaukanum. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu á vefsíðu sinni í dag.

Fimm innri plánetur Kepler-11 sólkerfisins eru frá 2,3 til 13,5 sinnum massameiri en jörðin og það tekur þær innan við fimmtíu daga að fara hring um stjörnuna. Sporbaugar þeirra allra eru svo nærri stjörnunni að þeir myndu komast fyrir innan sporbaugs Merkúr í okkar eigin sólkerfi.

Sjötta plánetan gengur hins vegar um stjörnuna á 118 daga fresti og er helmingi nær stjörnunni en jörðin er frá sólinni. Jack Lissauer, vísindamaður hjá NASA, segir að það hafi verið óvænt að finna sólkerfi þar sem pláneturnar eru svo nærri hver annarri og að það gæti verið svo margar af þeim á svo flötum sporbaugum.

„Kepler-11 sólkerfið er flatara en geisladiskur. Ef pláneturnar sex væru í okkar sólkerfi myndu þær allar liggja á milli sporbauga Merkúr og Venusar.“

Þó að engin plánetnanna sex líkist jörðinni útilokar Lissauer ekki þá hugmynd að fleiri plánetur gætu leynst í kringum stjörnuna sem gætu líkst jörðinni meir. Til að mynda er hitastigið á sjöttu plánetunni á milli 120-170 gráður á selsíus þannig að ytri plánetur yrðu kaldari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert