Skítugir sokkar laða að flugur

Skítugir sokkar geta komið sér vel
Skítugir sokkar geta komið sér vel Reuters

Þefur af skítugum sokkum getur nýst í baráttunni við moskítóflugur. Ný rannsókn sýnir að hægt er að nota þefinn til að táldraga flugurnar í gildrur áður en þær breiða malaríu út.

Dr. Fredros Okumu, hjá Ifakara heilbrigðisstofnuninni í Tansaníu, fann út að moskítóflugur löðuðust frekar að táfýlu heldur en fólki sofandi í sama herbergi. Segir hann að í rannsókninni hafi fólk sofið í einu húsi en í hinu hafi verið komið fyrir blöndu sem minnti á táfýlu. Sóttust flugurnar miklu fremur í að fara inn í húsið þar sem táfýluna var að finna heldur en í húsið þar sem fólk var sem ekki angaði af táfýlu.

Réðust flugurnar til atlögu við blönduna en í stað þess að fá blóð að drekka þá drápust þær þar sem í blöndunni var að finna efni sem banaði flugunum.

Okumu hefur fengið 775 þúsund Bandaríkjadali í styrk frá stofnun sem kennd er við hjónin Bill og  Melindu Gates til þess að halda rannsóknum áfram.

Alls létust 781 þúsund jarðarbúar úr malaríu árið 2009. Um það bil 90% létust í Afríku og 92% þeirra sem létust voru börn fimm ára og yngri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert