Mannkynið sprengir skuldaþak

Skógarhögg gengur hraðar á skóga heimsins en náttúran ræður við.
Skógarhögg gengur hraðar á skóga heimsins en náttúran ræður við. AP

Á síðustu níu mánuðum hefur mannkynið neytt meira af náttúruauðlindum jarðarinnar en hún ræður við að endurnýja á einu ári. Ef fram heldur sem horfir þarf mannkynið aðra plánetu árið 2030 til að standa undir neyslunni og til að taka við mengun. Hefur neyslan aukist stöðugt undanfarin ár. Kemur þetta fram í nýrri rannsókn bandarískra náttúruverndarsamtaka.

Hinir sjö milljarðar jarðarbúa nota nú meira vatn, höggva fleiri tré og borða meiri fisk en náttúran getur staðið undir. Á sama tíma dæla þeir meira af koltvísýringi, mengunarefnum og áburði út í náttúruna en andrúmsloftið, jarðvegurinn og höfin ráða við að brjóta niður.

Hafa samtökin árlega talið niður dagana frá 1. janúar þangað til mannkynið er búið að fara fram úr þeirri neyslu og mengun sem jörðin stendur undir. Hefur það tekið um þremur dögum minna á hverju ári frá 2001. Búist er við að sá dagur renni upp þann 27. september í ár.

„Þetta er eins og að eyða árslaununum þínum þremur mánuðum áður en árið er liðið og ganga á sparnaðinn ár eftir ár. Fyrr en síðar verður spariféð uppurið,“ segir Mathis Wackernagel, forseti Global Footprint Network sem gerði rannsóknina.

Segir hann hækkandi matvælaverð og alvarleg áhrif loftslagsbreytinga vera þann toll sem efnahagslíf heimsins sé nú að gjalda fyrir árlegan framúrakstur hvað varðar náttúruna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert