Tvær milljónir án bólusetninga

Bólusetningar bjarga lífum.
Bólusetningar bjarga lífum. Ómar Óskarsson

Meira en einn af hverjum tíu foreldrum í Bandaríkjunum hafna því að láta bólusetja börnin sín eða fresta því af ótta um öryggi bólusetninga. Að sögn bandarískra yfirvalda gætu því allt að tvær milljónir ungbarna og ungra barna verið berskjölduð fyrir ýmsum sjúkdómum sem hægt er að komast hjá. Sumir þeirra eru banvænir eða geta valdið varanlegri örorku.

Fyrir sex ára aldur ættu börn að hafa verið bólusett fyrir fjórtán sjúkdómum. Í könnun sem gerð var á meðal foreldra barna sex ára og yngri kemur hins vegar í ljós að margir foreldrar stefna heilsu barna sinna og annarra í hættu með því að neita því að láta bólusetja þau.

Andstaða sumra foreldra við bólusetningar eru meðal annars sögð skýrast af villandi frásögnum af því að tengsl séu á milli einhverfu og ákveðinna bóluefna. Þá geri það að foreldrar dagsins í dag hafi aldrei séð börn þjást af þeim sjúkdómum sem bólusett er fyrir það að verkum að þeir telji bólusetningu ónauðsynlega.

Jafnvel þeir foreldrar sem létu bólusetja börn sín höfðu efasemdir um ágæti þess. Einn af hverjum fimm sagði að það væri öruggara að fresta því að láta bólusetja barn sitt frekar en að fylgja áætlun yfirvalda.

Staðfestir þessi könnun niðurstöður alríkiskönnunar sem birt var í síðasta mánuði. Náði hún til yfir 17 þúsund heimila.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert