Þingmenn deila um tölvuleik

Frá frumsýningu Call of Duty: Modern Warfare 3.
Frá frumsýningu Call of Duty: Modern Warfare 3. Reuters

Tveir þingmenn breska Verkamannaflokksins deila nú um tölvuleikinn Call of Duty: Modern Warfare 3. Þingmaðurinn Keith Vaz, sem lengi hefur barist gegn ofbeldisleikjum, lagði fram þingsályktunartillögu í síðustu viku þar sem leikurinn er fordæmdur. Flokksbróðir hans Tom Watson hefur hins vegar komið leiknum til varnar og segir fólk hafa frjálst val um hvort það spilar slíka leiki.

Vaz lagði fram ályktunartillögu þar sem ofbeldið í Modern Warfare 3 er fordæmt og lagt er til að breska kvikmyndaeftirlitið, sem sér um að ákveða aldurstakmörk á tölvuleiki, grípi til frekari varúðarráðstafana gegn ofbeldisleikjum. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu.

Það sem fer sérstaklega fyrir brjóstið á Vaz er hluti af leiknum þar sem hryðjuverkamenn sprengja upp neðanjarðarlest í Lundúnum og þykir hann minna á hryðjuverkaárásirnar í borginni þann 7. júlí árið 2005. Bendir Vaz á að sterkari vísbendingar séu um að tengsl séu á milli ofbeldisglæpa og ofbeldistölvuleikja.

Flokksbróðir hans, Tom Watson, er hins vegar á öndverðum meiði og lagði hann fram breytingatillögu við ályktunartillöguna. Þar bendir hann á að leikurinn sé nú þegar bannaður innan 18 ára í Bretlandi og að kvikmyndaeftirlitið hafi hafnað því að atriðið í leiknum líkist hryðjuverkaárásunum árið 2005.

„Það getur verið að það sé efni sem truflar fólk í þessum leik en fullorðið fólk ætti að hafa val um hvort það vill spila þess lags leiki eða ekki,“ segir Watson sem sjálfur er mikill aðdáandi Call of Duty-leikjanna.

Forveri leiksins, Modern Warfare 2, olli miklu fjaðrafoki á sínum tíma vegna umdeilds borðs þar sem leikmaðurinn tók þátt í fjöldamorði á óbreyttum borgurum á rússneskum flugvelli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert