Ríflega 36.000 .is lén

Internet á Íslandi hf. (ISNIC) segir að uppsafnaður heildarfjöldi léna í lok árs 2011 hafi verið rétt um 36.000 talsins. Á fimm árum hafi heildarfjöldi .is léna rúmlega tvöfaldast.

Fram kemur í tilkynningu frá ISNIC að nýskráð lén hafi verið 7.903, en 3.329 lén hafi verið afskráð á árinu. Nettófjölgunin hafi því reynst vera 4.574 lén, sem þýði um 14,5% aukningu léna á árinu 2011.

„Fjölgun .is-léna hefur verið nokkuð jöfn og góð undanfarin þrjú ár, eða 4.065 lén 2009, 4.165 lén 2010 og 4.574 lén á nýliðnu ári eins og áður sagði. Hins vegar dróst nettófjölgun léna saman á (hrun)árinu 2008.

Heildarfjöldi .is-léna hefur rúmlega tvöfaldast á fimm árum og er nú ríflega 36.000 lén, eða um 11% af fólksfjölda á Íslandi. Það er heldur lægra hlutfall en í Svíþjóð og Danmörku, sem hvort um sig státar af rúmlega einni milljón léna, en um helmingi hærra hlutfall en í Finnlandi og Noregi,“ segir í tilkynningu.

Þá segir að landshöfuðlénið .is verði 25 ára þann 18. nóvember nk. þótt fyrsta lénið, hi.is, hafi reyndar verið skráð þann 11. desember 1986.

Þá segir að ISNIC hafi lækkað árgjald léna þann 11. des. sl. um 12,5%, eða í kr. 6.982. Lækkun árgjaldsins sé ætlað að stuðla að um 18% fjölgun léna á árinu sem nú fari í hönd.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert