Segir sambúð betri en giftingu

Vilhjálmur Bretaprins og Catherine hertogaynja af Cambridge giftu sig í …
Vilhjálmur Bretaprins og Catherine hertogaynja af Cambridge giftu sig í fyrra. mbl.is

Fólk sem er í sambúð upplifir sig hamingjusamara, frjálsara og sjálfstæðara en fólk sem hefur gengið í hjónaband. Þetta er niðurstaða nýrrar bandarískrar könnunar sem greint er frá á vef Berlingske en niðurstöður hennar eru birtar í The Journal of Marriage and Family.

Doktor Kelly Musick, lektor við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum segir fólk í sambúð upplifa mun meiri hamingju og sjálfsvirðingu. Sambúð sé minna þvingandi fyrir marga og gefi aukna möguleika á sveigjanleika, sjálfstæði og persónulegri þróun.

Undanfarin ár hafi fleiri á Vesturlöndum farið að kjósa sambúðarformið, annað hvort fyrir eða í stað hjónabands. Þessi þróun hafi gert mörk hjónabandsins óskýrari og vakið upp spurningar um mun á því og öðrum valkostum.

Musick sagði að Bandaríkjamenn mætu hjónaband áfram meira en aðrar iðnþjóðir. Rannsóknin sýni hins vegar að hjónaband sé ekki eina leiðin til vellíðunar og að önnur form rómantískra sambanda geti boðið marga af sömu kostum þess.

Niðurstöðurnar byggja á svörum bandarískrar landskönnunar um fjölskyldur og heimili, frá 2.737 einstaklingum sem hafa svarað spurningum er lúta að samböndum, þeirra, hjónabandi, heilsu, hamingju og félagslífi.

Breytt viðhorf til hjónabands

Birthe Linddal félagsfræðingur hefur einnig rannsakað sambönd og fjölskyldulíf. Hið hefðbundna fjölskylduform með hjónabandi henta nútímamanninum illa. Nútímasamfélag fagni sjálfstæði og sveigjanleika og það fari illa saman við hina hefðbundnu fjölskyldusamsetningu með hjónabandi.

Hún segir viðhorf til hjónabandsins hafa breyst en áður hafi pirraða piparmeyjan verið birtingarmynd einhleypra kvenna og það hafi þótt mun virðulegra að vera giftur og fólk þá jafnsett öðrum sem nutu virðingar vegna aldurs og lífsreynslu. Í dag hins vegar snúist þetta um unga fólkið, líf einhleypra sem eru taldir búa við meiri sveigjanleika og frjálsræði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert