ACTA verra en SOPA og PIPA

Anonymous-samtökin eru meðal þeirra sem hafa fordæmt ACTA og stóðu …
Anonymous-samtökin eru meðal þeirra sem hafa fordæmt ACTA og stóðu m.a. fyrir mótmælum í Brussel á laugardag. Mótmælum var einnig haldið áfram í Póllandi um helgina. Reuter

Vegna þrýstings frá áhrifamiklum net- og tæknifyrirtækjum voru hin umdeildu bandarísku SOPA- og PIPA-frumvörp sett á ís fyrr í janúar en áhyggjufullir netverjar beina nú kröftum sínum að annarri löggjöf, ACTA, sem sögð er ganga jafnvel lengra en hinar tvær í að takmarka tjáningarfrelsið.

Ólíkt SOPA og PIPA, sem eru bandarísk lagafrumvörp, er ACTA í raun alþjóðlegur viðskiptasamningur, sem gengur út á það að koma á alþjóðlegum viðmiðum í baráttunni gegn brotum á höfundarrétti.

Samkvæmt ACTA, eða Anti-Counterfeiting Trade Agreement, verður sett á laggirnar sérstök stofnun eða nefnd sem mun hafa umsjón með beitingu og túlkun samningsins og mun hún ekki þurfa að svara æðra yfirvaldi, sem hefur verið harkalega gagnrýnt.

ACTA er ætlað að taka á fölsunum á áþreifanlegum vörum og lyfjum en einnig á höfundaréttarbrotum á netinu. Samkvæmt úttekt Free Software Foundation verður netveitum m.a. bannað að hýsa ókeypis hugbúnað sem veitir aðganga að höfundaréttarvörðu efni og ekki verður lengur hægt að spila höfundaréttarvarið efni með ókeypis hugbúnaði.

Netverjar hafa mótmælt bæði aðferðafræðinni á bakvið smíði samningsins, þar sem hann var t.d. aldrei tekinn til opinberrar umræðu, og innihaldi hans. Hefur því m.a. verið haldið fram að þarna muni opnast gluggi til að njósna um hvað fólk aðhefst og nær í á netinu og þá muni samningurinn hamla bæði tækniframþróun og tjáningarfrelsinu.

Bandaríkin, Ástralía, Kanada, Japan og Suður-Kórea voru meðal þeirra landa sem skrifuðu undir samninginn í fyrra og síðastliðinn fimmtudag fylgdu mörg Evrópulönd í kjölfarið, t.d. Finnland, Frakkland, Írland, Ítalía, Portúgal og Grikkland.

Pólland var einnig meðal þeirra landa sem skrifaði undir en í kjölfarið voru mótmælagöngur farnar víða í landinu, þar sem fólk fór fram á „frjálst internet“ og „enga ritskoðun,“ eins og mótmælaspjöld báru vitni um.

Sama dag, 26. janúar, sagði sérstakur ráðunautur Evrópusambandsins um ACTA af sér og fordæmdi samninginn m.a. vegna þess að ekkert samráð hefði verið haft við hagsmunaaðila, algjörlega hefði skort á gegnsæi og ekkert tillit hefði verið tekið til krafa Evrópuþingsins. Sagðist hann ætla að senda út skýra viðvörun um málið og gera almenningi vart við um ástandið, sem væri algjörlega óásættanlegt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert