Víkingamýs fóru í landvinninga

Íslensk víkingamús.
Íslensk víkingamús. mbl.is/Ómar Óskarsson

Mýs bárust með norrænum víkingum til nær jafnmargra landa og þeir sjálfir fyrir um þúsund árum síðan samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem fræðimenn meðal annars við Háskólann í Uppsölum í Svíþjóð hafa framkvæmt en niðurstöðurnar voru birtar nýverið í tímaritinu „BMC Evolutionary Biology“.

Um er að ræða rannsókn sem gerð hefur verið á erfðaefni nútímamúsa á Íslandi og Grænlandi en það hefur verið borið saman við beinagrindur norskra músa frá víkingatímanum. „Við sýnum fram á að þær komust alla leiðina til Grænlands,“ segir Elenor Jones frá Háskólanum í Upptölum sem veitti rannsókninni forystu.

Fram kemur að íslensku mýsnar séu enn af sama stofni og mýs frá víkingatímanum og er það rakið til þess að músastofninn á Íslandi hafi verið að mestu leyti einangraður um aldir. Að sögn Jones er um nákvæmlega sama erfðaefni að ræða frá því á níundu öld og fram á þennan dag.

Hins vegar er talið ólíklegt að norrænar mýs hafi komist til Nýfundnalands þar sem einungis um 20 víkingar hafi í heildina komist þangað og verið þar aðeins í skamman tíma. Hins vegar er ekki hægt að útilokað það en það sem stóð fræðimönnunum aðallega fyrir þrifum í þeim efnum var skortur á erfðaefni úr aldagömlum músum af því svæði til samanburðar.

Fram kemur að í fyrri rannsóknum sínum hafi Jones sýnt fram á að norrænar mýs hafi tekið sér bólfestu víða á Bretlandseyjum og á Írlandi. Þangað hafi þær líklega komist með því að koma sér fyrir í heyi og korni sem flutt var á víkingaskipum fyrir búpening.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert