Ísland er of langt frá notendunum

Greenpeace hvetur hugbúnaðarfyrirtæki til að staðsetja gagnasöfn á Íslandi en …
Greenpeace hvetur hugbúnaðarfyrirtæki til að staðsetja gagnasöfn á Íslandi en Hamilton segir Ísland of langt frá notendunum. -

Það er flóknara en margir halda fyrir tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki að flytja gagnaver sín til Íslands. Ódýr og hrein orka er ekki það eina sem til þarf. Þetta segir James Hamilton hjá Amazon. Hann heldur því fram að Ísland sé einfaldlega of langt í burtu frá helstu notendum og það bitni á hraða því hver einasta millisekúnda skipti máli.

Í bloggi sem Hamilton skrifaði segir hann nauðsynlegt að staðsetja gagnverin sem næst notendunum. Hann segir æskilegan flutningshraða á gögnum vera 200 millisekúndur - sá tími gæti lengst verulega ef gagnaverið er staðsett langt í burtu að mati Hamilton.

Bloggfærslan er svar við opnu bréfi frá náttúruverndarsamtökunum SmartPlanet til forstjóra Microsoft, Amazon og Apple þar sem ítrekaðar voru hugmyndir Greenpeace um hversu góð skilyrði væru á Íslandi fyrir gagnaver. Greenpeace hefur undanfarið þrýst á hugbúnaðarfyrirtæki að velja græna orkugjafa.

Hamilton segir að fjarlægir staðir eigi erfitt með að keppa við gagnaver í stórborgum því þar séu notendurnir. Nýlega opnaði Facebook gagnaver í Svíþjóð og Google hefur einnig opnað eitt slíkt í Finnlandi. Bæði eru þessi gagnaver á svæðum þar sem orka er tiltölulega ódýr og vistvæn en þau eru hins vegar langt frá helstu notendum.

Hamilton bendir á að þrátt fyrir að orka sé rándýr og mengandi í New York hafi Google ákveðið að verja um 1,9 milljörðum Bandaríkjadala í gríðarstórt gagnaver á Manhattan. Ástæðan sé einfaldlega sú að þar séu milljónir notenda.

„Google er í New York því þar eru milljónir notenda. Ef það væri eðlisfræðilega mögulegt að þjónusta þessa viðskiptavini frá fullkomnum gagnaverum annars staðar í heiminum ... þá myndu þeir auðvitað gera það,“ segir Hamilton.

Sagt er frá þessu á tæknisíðunni Datacenter Dynamics.

Hamilton segir að fjarlægir staðir eigi erfitt með að keppa …
Hamilton segir að fjarlægir staðir eigi erfitt með að keppa við gagnaver í stórborgum því þar séu notendurnir. -
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert