Aldrei mælst eins lítið af hafís

Hringanóri í hafís.
Hringanóri í hafís.

Hafís hefur ekki áður mælst jafn lítill og í ár. Allt bendir til að nýtt met verði sett í ár. Að mati Veðurstofu Íslands er líklegt að hafís sé nú minni en hann hefur verið öldum saman.

Hafís á norðurhveli er mestur síðla vetrar og þekur þá 14 - 15 milljónir ferkílómetra. Á sumrin dregst hafísbreiðan verulega saman og fer niður í 5 - 6 milljónir ferkílómetra. Undanfarna áratugi hefur flatarmál breiðunnar minnkað í takt við hlýnun norðurheimskautssvæðisins. Samdrátturinn er meiri að sumarlagi en að vetri til og langminnst varð útbreiðslan sumarið 2007 þegar hafísbreiðan varð rúmlega 4 milljónir ferkílómetrar.

Þótt næstu ár hafi útbreiðslan að sumarlagi verið langt undir meðallagi varð hún aldrei jafnlítil og árið 2007. Útbreiðsla hafíssins segir heldur ekki alla söguna um ísmagnið á norðurheimskautssvæðinu því að ísinn er þynnri en áður og því er heildarrúmmál íssins minna. Vísindamenn hafa haft áhyggjur af því að þynnri ís ráði verr við aftakahvassviðri, óvenjuhlýja sumardaga eða önnur veðurfyrirbæri sem geta dregið úr útbreiðslunni.

Rannsóknir sýna að hafísinn náð það sem af er sumri að minnka niður að lágmarkinu frá því árið 2007 og ekkert lát virðist á bráðnuninni. Í venjulegu árferði gæti hafísþekjan haldið áfram að dragast saman næstu 2 – 3 vikur og því ljóst að á árinu 2012 verður til nýtt met.

Frétt á heimasíðu Veðurstofunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert