Kona tekur völdin í Alþjóðlegu geimstöðinni

Kona hefur nú tekið völdin í Alþjóðlegu geimstöðinni en þrír geimfarar, einn bandarískur og tveir rússneskir, lentu heilu og höldu á jörðinni í dag eftir að hafa eytt yfir 100 dögum í geimnum.

Geimfararnir þrír lentu á Kazakh-steppunni í Rússlandi í dag.

„Það er gott að vera kominn heim,“ sagði Joe Acaba, en hann hefur dvalið 125 daga samfleytt í geimnum.

Þrír aðrir geimfarar hafa nú sest að í Alþjóðlegu geimstöðinni og fer hin bandaríska Suni Williams með stjórnina í stöðinni. Engin önnur kona hefur eytt jafnmörgum klukkustundum á sporbaug um jörðu og Williams.

Williams þakkaði Rússanum Gennadi Padalka, sem fór með stjórn geimstöðvarinnar á undan henni, fyrir samveruna í stöðinni en nú tekur teymi Williams við stjórninni næsta mánuðinn. Hóparnir tveir höfðu eytt tíma saman í geimstöðinni áður en þríeykið kom til jarðar í dag og yfirgaf stöðina í Soyuz-geimskutlunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert