Pandahúnninn dauður

 Pandahúnninn sem fæddist fyrir viku í dýragarðinum í Washington er dauður. Ekki er enn ljóst úr hverju pandan drapst.

Verðirnir í dýragarðinum heyrðu óhljóð frá móður húnsins, Mei Xiang, kl. 9.17 í morgun og létu dýralækna strax vita. Húnninn var færður til rannsóknar skömmu síðar og á honum gerðar lífgunartilraunir en allt kom fyrir ekki og hann drapst.

Dýralæknar segja að ekki sjáist ummerki um veikindi eða meiðsli á hræinu og að húnninn litli hefði virst við góða heilsu áður en hann drapst. Hann var aðeins 100 grömm að þyngd.

Starfsfólkið segist syrgja litla húninn og að vel verði fylgst með móður hans næstu vikur.

Hægt var að fylgjast með mæðginunum í gegnum vefmyndavél allan sólarhringinn. En nú er búið að slökkva á vélinni.

Mei Xiang fæddi litla húninn 16. september. Starfsfólk dýragarðsins lét hana að mestu eina um uppeldið.

Um 1.600 villtar pöndur halda til í fjöllum Kína. Um 300 til viðbótar eru í dýragörðum um allan heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert