Nýtt lyf eykur lífslíkur kvenna með brjóstakrabbamein

Frá leitarstöð Krabbameinsfélagsins.
Frá leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Heiðar Kristjánsson

Ný meðhöndlun við brjóstakrabbameini eykur lífslíkur sjúklinga um sex mánuði og hefur færri aukaverkanir í för með sér. Meðhöndlunin er notuð við alvarlegum tilfellum, þegar sjúkdómurinn hefur breiðst hratt út.

Meðhöndlunin er afrakstur alþjóðlegrar rannsóknar á þeirri tegund brjóstakrabbameins sem kallast HER-2. Lyfi, sem þróað var af lyfjafyrirtækinu Roche, er sprautað í líkamann og það nær fyrr til krabbameinsfrumanna en aðrar lyfjameðferðir.

Einn rannsakenda er Daninn Michael Andersen, yfirlæknir við krabbameinsdeild Ríkissjúkrahússins í Kaupmannahöfn í Danmörku. 

„Þetta er mjög stórt og mikilvægt skref í meðferð kvenna með brjóstakrabbamein,“ segir Andersen í samtali við danska dagblaðið BT.

Rannsóknin leiddi meðal annars í ljós að konur, sem fengu nýju meðferðina, lifðu að meðaltali sex mánuðum lengur en konur sem voru með sjúkdóminn á svipuðu stigi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert