Rýfur Baumgartner hljóðmúrinn?

Austurríski fallhlífastökkvarinn Felix Baumgartner stefnir að því að vera fyrsti maðurinn sem rýfur hljóðmúrinn án aðstoðar farartækis. Hann ætlar að stökkva úr loftbelg sem verður í 36,5 km hæð fyrir ofan Roswell í Nýju-Mexíkó.

Í þeirri hæð á hann að geta náð 1.110 km hraða á 40 sekúndum. Baumgartner verður með fallhlíf og ef allt gengur að óskum mun hann lenda um 10 mínútum síðar í eyðimörkinni í Nýju-Mexíkó.

Baumgartner, sem er 43 ára gamall, er þekktur fyrir að stökkva fram af háhýsum. Fram kemur á vef BBC að hann geri sér fulla grein fyrir þeim hættum sem hann stendur frammi fyrir.

Loftþrýstingurinn í 36,5 km hæð yfir jörðu er aðeins 2% af því sem hann er við sjávarmál. Þar er ekki hægt að anda án þess að hafa súrefniskút og verður hann í sérhönnuðum geimbúningi.

„Ef eitthvað fer úrskeiðis, þá er guð sá eini sem getur mögulega hjálpað mér,“ segir Baumgartner.

Aðrir sem hafa reynt að slá núverandi met fyrir hæsta, hraðasta eða lengsta stökk í frjálsu falli hafa látið lífið.

Baumgartner stefnir að því að leggja af stað kl. 7 að staðartíma í dag (kl. 13 að íslenskum tíma) ef veður leyfir.

Nánar um stökkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert