40% unglinga eiga iPhone-snjallsíma

iPhone 5 snjallsími
iPhone 5 snjallsími AFP

Tveir af hverjum fimm bandarískum unglingum eiga iPhone-síma samkvæmt nýrri könnun.

Í frétt frá AFP-fréttastofunni kemur fram að tekið hafi verið úrtak 7.700 unglinga og farsímaeign þeirra meðal annars könnuð á þremur tímapunktum. Fyrir ári áttu 23% iPhone-snjallsíma, það hlutfall var 34% fyrir 6 mánuðum síðan en er 40% nú.

Í könnunni kom jafnframt fram að 62% unglinga langar annað hvort í nýjan iPhone-síma eða gætu hugsað sér að kaupa sér nýjan á næstunni. Áframhaldandi vöxtur í sölutölum er því ekki ólíklegur að mati þeirra sem framkvæmdu könnunina.

Í könnuninni kom jafnframt fram að 44% unglinganna eiga spjaldtölvur og þar af eru 72% iPad-spjaldtölvur.

Um 74% þeirra sem hyggjast kaupa spjaldtölvu á næstu mánuðum sögðust í könnuninni ætla að kaupa sér iPad.

Búist er við því að Apple kynni bráðlega minni, ódýrari gerð af spjaldtölvu sem ætlað er að höfða til þeirra sem ekki hafa efni á iPad.

Hlutabréfaverð í Apple, sem féll nokkuð eftir að hafa toppað síðasta mánuði, reis um 1,1% í dag eftir að könnunin var kunngerð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert