Sólarvörn kveikti í fólki

Vörur úr línunni UltraMist frá Banana Boat hafa verið innkallaðar …
Vörur úr línunni UltraMist frá Banana Boat hafa verið innkallaðar vegna íkveikihættu.

 Framleiðandi Banana Boat sólar- og brúnkuvaranna, hefur innkallað nokkrar vörur þar sem kviknað hafði í fólki eftir að hafa borið þær á sig.

Fyrirtækið Energizer Holdings hefur því innkallað yfir 20 vörutegundir úr vörulínunni UltraMist vegna hættu á því að kremið valdi því að það geti kviknað í fólki standi það nálægt opnum eldi eftir að hafa borið, eða úðað kreminu á sig.

Meðal vara sem hafa verið innkallaðar eru UltraMist Sport, UltraMist Ultra Defense og UltraMist Kids.

Talsmaður fyrirtækisins segir að fimm tilkynningar hafi borist um að kviknað hafi í fólki eftir að það bar eða úðaði á sig kremunum. Fjögur tilfellanna áttu sér stað í Bandaríkjunum og eitt í Kanada.

Samkvæmt upplýsingum frá umboðsaðila Banana Boat á Íslandi er vörulínan UltraMist ekki seld hér á landi.

UltraMist-vörulínan kom á markað árið 2010.

„Ef notandi kemst í nálægð við eld eða neista áður en kremið þornar er hætta á að varan valdi íkveikju,“ segir talsmaður fyrirtækisins, í frétt AP-fréttastofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert