Apple kynnir iPad mini

Bandaríska tæknifyrirtækið Apple hefur svipt hulunni af smærri útgáfu af iPad spjaldtölvunni, sem nefnist iPad mini. Greint var frá þessu á kynningu fyrirtækisins sem fer nú fram í San Jose í Kaliforníu.

„Þetta er iPad mini,“ sagði Phil Schiller, sem er aðstoðarforstjóri alþjóðamarkaðssviðs Apple, þegar hann sýndi tækið. 

„Þetta er ekki bara minni iPad,“ sagði hann og bætti við: „Þetta er alveg ný hönnun.“

Stærð skjásins á nýju spjaldtölvunni er 7,9 tommur en á stærri útgáfu iPad er stærðin 9,7 tommur. Þetta er jafnframt ódýrasta iPad-spjaldtölva Apple en í Bandaríkjunum mun hún kosta um 329 dali, sem samsvarar um 41.000 kr.

Apple kynnti jafnframt fjórðu kynslóð upphaflegu iPad-spjaldtölvunnar, en fyrirtækið segist hafa selt yfir 100 milljónir spjaldtölva á tveimur og hálfu ári.

Óhætt er að fullyrða að spjaldtölvuæði hafi gripið um sig eftir að Apple kynnti iPad fyrst til sögunnar snemma árs 2010.

Nánar á heimasíðu Apple.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert