Loðfíll í nágrenni Parísar

Nánast heil beinagrind loðfíls, sem var uppi fyrir 200 þúsund - 500 þúsund árum, fannst nýverið skammt frá París í Frakklandi, samkvæmt upplýsingum frá Fornleifastofnun Frakklands. Beinagrindin fannst í Changis-sur-Marne, norðaustur af París.

Fornleifafræðingar, sem fundu beinagrindina, segja að loðfíllinn, sem þeir hafa nefnt Helmut, hafi verið 20 til 30 ára þegar hann drapst.

Um afar merkan fund er að ræða en ekki er langt síðan vel varðveittur fullorðinn loðfíll fannst í Síberíu.

Loðfílar eru af ætt fíla (Elephantidae) eins og nafnið gefur til kynna. Talið er að fílaættin hafi verið komin fram fyrir um fimm milljónum ára í Afríku og að frumfíllinn hafi í megindráttum litið út eins og fílar nútímans, segir á Vísindavefnum.

Fílaættin greindist síðan í kvíslir, ein þeirra færði sig austur til suðaustur Asíu og varð með tímanum að asíska fílnum en önnur hélt sig við Afríku og er forveri þeirra fíla sem nú lifa þar. Mammútar (Mammuthus), sem eru þriðja kvíslin, héldu hins vegar norður til Evrópu og dreifðust síðan austur um Síberíu.

Fyrstu mammútarnir komu fram í Norður-Afríku fyrir um 3-4 milljónum ára en það mun hafa verið tegundin Mammuthus africanavus. Smám saman fikruðu mammútarnir sig norður um Evrópu og Evrasíu og greindust í nokkrar tegundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert