Almyrvki á sólu í Ástralíu

Sólmyrkvi.
Sólmyrkvi. AFP

Tugþúsundir manna hafa nú safnast saman í norðurhluta Ástralíu til að verða vitni að almyrkva á sólu sem búist er við á miðvikudaginn. Vísindamenn segja að þetta hafi ekki sést á þessum slóðum undanfarin 1.300 ár. 

Búist er við því að almyrkvinn sjáist best á milli Cairns og Port Douglas, sem eru vinsælir ferðamannabæir. Allt gistirými er uppselt á þessum slóðum; allt frá tjaldstæðum til fimm stjörnu hótela.

Almyrkvinn verður yfir Suður-Kyrrahafi, en Norður-Ástralía er eini staðurinn þaðan sem hægt verður að sjá hann. Almyrkvinn hefst við sólarupprás, en þá fer tunglið fyrir sólu. Búist er við því að hann muni lengst standa yfir í rúmar tvær mínútur.

Deildarmyrkvi á sólu mun sjást á sama tíma frá Papúa Nýju-Gíneu, austurhluta Indónesíu, austurhluta Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Pólýnesíu, hluta Suðurskautslandsins og suðurhluta Síle og Argentínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert