Gangandi brauðrist og snakksamstæða

Japanskir vísindamenn eiga heiðurinn af mörgum merkum uppfinningum, en þeir hafa líka fundið upp ýmislegt sem fáir sjá notagildi í. Nú hefur verið opnuð sýning í borginni Osaka á ýmsum japönskum uppfinningum sem hafa ekki slegið í gegn.

Þar á meðal er gangandi brauðristin og „snakksamstæðan“ sem spælir egg, steikir brauð og flóar mjólk; allt á sama tíma.

Þá gefur að líta á sýningunni plastfilmu í ýmsum litum, sem fólk gat fest á skjái svarthvítra sjónvarpstækja í byrjun sjöunda áratugarins til að sjá myndina í lit.

Meðal annarra sýningargripa er útvarp, sem lítur út eins og sjónvarp. Það var framleitt í árdaga sjónvarps fyrir þá sem höfðu ekki efni á slíkum tækjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert