Gull að finna á flekamótum

Gullnámugröftur á hafsbotni verður fjarstýrður af yfirborðinu, hugsanlega frá mannvirkjum …
Gullnámugröftur á hafsbotni verður fjarstýrður af yfirborðinu, hugsanlega frá mannvirkjum ekki ósvipuðum olíuborpöllum.

Mikið magn af gull, silfri og kopar er að finna á hafsbotni. Á flekamótum eru möguleikarnir mestir, þar á meðal í Norður-Atlantshafi, s.s. meðfram Mið-Atlantshafshryggnum. Frá þessu segir norska blaðið Aftenposten í dag. 

Fyrstu skrefin í gullgreftri á hafsbotni verða tekin á næstunni á um 1.600 metra dýpi við Papúa Nýju-Gíneu, sem staðsett er á s.k. „eldhring“ í Kyrrahafi. Þar er kanadíska námufyrirtækið Nautilus Minerals búið að gera áætlun um umfangsmikla gullleit og hefur þegar fengið öll tilskilin leyfi að sögn Aftenposten. Talið er að þar sé að finna ótrúlegt magn af gulli, allt að 226 grömm í hverju tonni af jarðvegi, en gullnámur teljast jafnan arðsamar ef þær geyma 2-3 grömm í hverju tonni.

Fulltrúar frá Íslandi á fundi með Norðmönnum

Aftenposten segir að bæði vísindamenn og námafyrirtæki séu áhugasöm um samskonar gulleit í hafinu við Noreg. Í þessari viku hittust nokkrir fremstu sérfræðingar landsins í sjávarlíffræði og tækni ásamt fjárfestum í Þrándheimi til að ræða möguleikana á námuvinnslu á hafsbotni. Fram kemur að mikill pólitískur áhugi sé einnig á málinu og á fundinn hafi boðað komu sína fulltrúar nokkurra landa í kyrrahafi auk fulltrúa stjórnvalda frá Íslandi, Rússlandi, Portúgal og Noregi. 

„Við viljum skoða möguleikana á eðalmálmanámuvinnslu í Atlantshafi. Ætlunin er að fara yfir tæknilega möguleika og umhverfislegar takmarkanir á slíkum frumkvöðlaverkefnum,“ hefur Aftenposten eftir Tom Heldal, framkvæmdastjóra norsku jarðvísindastofnunarinnar, NGU.

Ýmsa málma að finna milli Noregs og Grænlands

Talið er að líklegustu staðirnir séu þar sem eldvirkni er mikil á flekamótum þar sem myndast sk. möttulstrókar, þar sem brennheitt efni streymir upp í kaldan sjóinn. Slíkir staðir hafa m.a. fundist norður af Jan Mayen og við Svalbarða. „Við vitum að það eru ýmsir málmar meðal annars meðfram Mið-Atlantshafshryggnum milli Noregs og Grænlands. Vísindamenn við Háskólann í Bergen hafa sýnt fram á steinefni á stað sem kallaður er Höll Loka, á um 2.300 metra dýpi 300 km  vestur af Bjarnarey. Þá hefur Norska olíustofnunin safnað ýmsum spennandi prufum meðfram Jan Mayen-hryggnum, en okkur vantar að vita meira,“ segir Heldal. 

Nautilus Minerals mun hefja gullgröft á hafsbotni árið 2014 og ári síðar ætlar breska námufyrirtækið Neptun Minerals að gera slíkt hið sama. Bæði fyrirtæki hafa tryggt sér stórt leitarsvæði sem rannsóknir benda til að séu rík af málmi, þar á meðal gulli, kopar, silfri, sinki og blýi. Kínverjar munu einnig hafa augastað á námugreftri á hafsbotni og stefna að sögn Aftenposten á að hefjast handa fyrir árið 2030. Cook eyjur í Kyrrahafi og Nýja-Sjáland eru staðir sem einnig eru taldir líklegir til að vera ríkir af málmum á hafsbotni. 

Búast við að uppskera ríkulega

Haft er eftir David Heydon, framkvæmdastjóra Nautilus Minerals, að hann sé afar bjartsýnn og telji að gröftur á hafsbotni verði stærsta skrefið fram á við sem námuiðnaðurinn hefur tekið í 50 ár. Hann bendir á að mikla samansöfnum af eftirsóknarverðum málmum sé að finna á litlu svæði á hafsbotni og að fyrirtækið muni því fljótt uppskera ríkulega. 

Námugreftri á hafsbotni verður fjarstýrt frá skipum á yfirborðinu. Á hafsbotni munu beltagröfur aka um og safna jarðvegi og grjóti sem verði pumpað upp á yfirborðið. Nautilus Minerals sér einnig fyrir sér „verkamannabúðir“ á hafsbotni í ögn fjarlægari framtíð. 

Norður-Atlantshaf.
Norður-Atlantshaf. mbl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert