Foreldrar fá þrívíddarlíkan af fóstrinu

Verðandi foreldrar í Japan sem geta ekki beðið eftir að fá barn sitt í fangið og líta það augum í fyrsta sinn geta nú keypt þrívíddarlíkan af fóstrinu. Þannig geta þeir sýnt vinum og ættingjum litla barnið löngu áður en það dregur andann í fyrsta sinn.

Líkanið er um níu sentímetrar á hæð og er unnið út frá sónarmyndum af barninu í móðurkviði.

„Þar sem kona gengur aðeins með hvert barn einu sinni fengum við fyrirspurnir um svona líkön frá mæðrunum. Þær vilja ekki gleyma þeirri tilfinningu og þeirri reynslu sem fylgdi óléttunni,“ segir Tomohiro Kinoshita hjá FASOTEC, fyrirtækinu sem býður þjónustuna.

Líkanið sem kallast „Shape of an Angel“ kostar 1.200 dollara eða um 150 þúsund krónur. Því fylgir enn smærra líkan sem hægt er t.d. að setja á farsímann en mjög vinsælt er að skreyta farsíma sína í Japan.

Í desember mun fyrirtækið svo bjóða verðandi foreldrum upp á nákvæmt líkan af andliti fóstursins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert