Risavaxinn fjarstýrður róbóti

Það er fjórir metrar á hæð, vegur fjögur tonn og kostar sem samsvarar 170 milljónum króna. Þetta er lýsing á fjarstýrðu vélmenni sem japanski listamaðurinn Kogoru Kurata hefur smíðað.

Í róbótanum risavaxna er sæti fyrir einn mann ásamt stjórnbúnaði, að því er segir á vef breska ríkisútvarpsins. Einnig er hægt að fjarstýra vélmenninu með snjallsíma, en það getur m.a. hreyft armana og gengið. Mesti gönguhraði er um 10 km á klukkustund.

Kurata segist hafa sem barn haft mikinn áhuga á vélmennum sem hann horfði á í teikni- og kvikmyndum. „Vélmennin sem mín kynslóð ólst upp með voru ávallt stór og fólk var alltaf að fela sig inni í þeim,“ segir hinn 39 ára gamli Kurata.

Hann átti þá ósk heitasta að vekja vélmennin til lífsins. Nú er draumurinn orðinn að veruleika og er það til sýnis á safni í Tókýó í Japan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert