Vara við landakortum Apple

Apple iPhone 5
Apple iPhone 5 AFP

Ástralska lögreglan varaði ökumenn við því í dag að nota landakort frá  Apple á iPhone símum sínum til þess að rata rétta leið. Hefur lögreglan þurft að koma þó nokkrum til bjargar sem hafa farið villir vegar í óbyggðum landsins eftir að hafa nýtt sér Apple Maps. Óttast lögreglan að notkun kortanna geti kostað einhver mannslíf.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu í Victoria hafa ökumenn farið ófæra vegi eftir leiðbeiningum á símum sínum þegar þeir hafa verið að reyna að fara til bæjarins Mildura. Hafa þeir hafnað djúpt inni í viðjum þjóðgarðs í stað bæjarins. Ekki er hægt að nálgast vatn á þessum slóðum í þjóðgarðinum og hitinn fer í 46 gráður á þessum árstíma. Því sé það spurning um líf eða dauða ef fólk villist af leið.

Áströlsk yfirvöld segja að Apple Maps staðsetji Mildura um 500 km norðvestur af Melbourne. Það er aftur á móti í hjarta þjóðgarðsins Murray Sunset. Mildura er hins vegar í um 70 km fjarlægð þaðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert